Ólöf Hildur Pálsdóttir, stjórnarmaður Eimskips, keypti í dag hluti í félaginu fyrir 10,7 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar .

Ólöf keypti 30.000 hluti í félaginu á genginu 357 krónur í gegnum félag sitt, Skaftafell Invest ehf. Ólöf hefur setið í stjórn Eimskips frá því í mars á þessu ári. Frá árinu 2019 hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs atNorth, sem áður hét Advania Data Centers.

Fyrr í dag greindi Viðskiptablaðið frá því að markaðsvirði Eimskips hafi aukist um 12,4 milljarða frá því að félagið tilkynnti 1,5 milljarða sátt við Samkeppniseftirlitið. Gengi hlutabréfa félagsins var 287 krónur þegar greint var frá sektinni en það er nú í 358 krónum.

Hún er annar stjórnarmaður Eimskips sem að kaupir í félaginu á stuttum tíma en Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, keypti 90 þúsund hluti í félaginu fyrir rúmlega 30 milljónir króna á genginu 337,5 krónur síðastliðinn föstudag.