„Mér þótti sú skoðanakönnun sem gerð var á vegum Viðskiptablaðsins á viðkvæmum tíma í kosningabaráttunni, mjög alvarleg tíðindi. Ég skil ekki hvað fyrir mönnum vakir að gera svona kannanir. Ég segi það bara hreint út,“ segir Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag atburðarás síðustu daga mjög alvarleg tíðindi fyrir flokkinn. Bjarni sagði í viðtalsþættinum Forsætið á RÚV í gærkvöldi að hann hafi íhugað að segja af sér sem formaður flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19-23% fylgi í skoðanakönnunum.

Í niðurstöðum skoðanakönnunar sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið og birtar voru í gær var spurt um fylgi almennings við einstaka stjórnmálamenn og það hvort viðkomandi myndi frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hann Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins. Í skoðanakönnuninni kom fram að nær helmingur þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hann Birna væri formaður flokksins og leiddi hann í kosningunum.

Ólöf sagðist í samtali við RÚV ekki skilja hvað vaki fyrir þeim sem létu gera vinsældakönnun á milli formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna verði að svara fyrir það. Þá sagðist Ólöf hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með atburðarás síðustu daga.

RÚV bendir á að Bjarni hafi látið að því liggja að stuðningsmenn Hönnu Birnu hafi staðið á bak við könnunina.