Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu og þá mun hún í vor hætta sem varaformaður flokksins.

Þetta kemur fram í viðtali við Ólöfu í Morgunblaðinu í dag.

Ólöf var fyrst kjörin á Alþingi árið 2007 og þá fyrir Norðausturkjördæmi. Hún var endurkjörin árið 2009 en þá fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Þá var hún kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á auka landsfundi sumarið 2010 eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði sagt af sér sem varaformaður.

Ólöf er sem kunnugt er eiginkona Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa í Evrópu. Hann var ráðinn í stöðuna um síðustu áramót og flutti í kjölfarið til Sviss. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stefnir Ólöf á að flytja þangað eftir næstu kosningar sem fram fara í vor.

Gera má ráð fyrir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði haldinn snemma á næsta ári. Þar verður, eðli málsins samkvæmt, kjörinn nýr varaformaður flokksins.