Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins lést í dag í kjölfar langvarandi veikinda. Ólöf starfaði sem innanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn frá 4. desember 2014 til 11. janúar 2017 en hún var kosin á þing í kosningunum nú í haust eftir að hafa hætt þingmennsku árið 2013.

Ólöf var fædd í Reykjavík 3. desember 1966, en foreldrar hennar voru Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóri og Dóra Guðjónsdóttir Nordal píanóleikar og húsmóðir.

Maki Ólafar var Tómas Már Sigurðsson og átti hún fjögur börn fædd á árunum 1991 til 2004.

Lögfræðingur frá Háskóla Íslands

Ólöf lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1994. Hún tók MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002.

Ólöf starfaði á árunum 1996 til 1999 sem deildarstjóri í samgönguráðuneytinu, síðan sem lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands og stundakennari í lögfræði og síðar deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar við Viðskiptaháskólann á Bifröst.

Árið 2002 til 2004 starfaði hún sem yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun, síðar framkvæmdastjóri sölusviðs RARIK og svo framkvæmdastjóri Orkusölunnar.

Gengdi tvisvar varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum

Loks var hún formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013 til 2014 og síðan Innanríkisráðherra.

Ólöf starfaði lengi innan Sjálfstæðisflokksins, og var hún formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi og síðar varaformaður flokksins á árunum 2010 til 2013 og aftur frá 2015.

Hún var alþingismaður flokksins milli áranna 2007 til 2013, og svo aftur frá því að kosið var til þings nú í haust eins og áður sagði.

Á Alþingi starfaði hún í allsherjarnefnd, samgöngunefnd, umhverfisnefnd, fjárlaganefnd, kjörbréfanefnd, sérnefnd um stjórnarskrármál, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.