„Það hefur komið á daginn svo ekki verður um villst að leiðtogahæfileikar felast ekki í því að hafa setið áratugum saman á Alþingi.  Kannski hafa einhverjir vonast til þess vorið 2009 – vonbrigði þeirra hljóta að vera mikil.“

Þetta sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í kvöld.

Ólöf sagði að það vantaði forystu í landið til að leiða saman ólíka hópa og draga vagninn áfram inn í framtíðina.   „Það vantar leiðtoga sem markar stefnu til framtíðar,“ sagði Ólöf.

„Við verðum að losna við ríkisstjórn sundurlyndis og tortryggni. Við Íslendingar verðum að losa okkur við ríkisstjórn sem neitar að viðurkenna að henni hefur mistekst á öllum sviðum að skapa aðstæður fyrirþjóðina að rísa upp úr þeim vandanum.“   Þá sagði Ólöf, af tilefni mótmælanna sem nú eiga sér stað á Austurvelli, að hún gæti ekki annað en hugleitt hvort og þá hvernig alþingismenn urðu viðskilja við almenning.

„Ég hlýt að spyrja mig hvort ég sé svo heillum horfin gagnvart fólkinu í landinu að ég átti mig ekki á ástæðum þess að hér fyrir utan standa þúsundir og mótmæla. Ég verð að spyrja alla þingmenn  þessarar sömu spurningar,“ sagði Ólöf.

„Ég kemst aðeins að einni niðurstöðu. Það hefur orðið trúnaðarbrestur á milli þings og þjóðar. Það er skylda okkar að öðlast trúnað fólksins í landinu.  Okkur má ekki mistakast. Það eru gríðarleg og mikilvæg verkefni sem bíða okkar. Við þurfum að marka stefnuna til framtíðar. Og framtíð okkar liggur í því að nýta auðlindir til sjávar og sveita. Við megum ekki við því að fjölskyldur flytji héðan. Tækifærin liggja í því að búa okkar glæsilega unga fólki tækifæri hér á landi.Tækifæri okkar liggja í því að standa saman en ekki sundra.“ Þá gangrýndi Ólöf fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra og sagði væntingar ráðherrans um hagvöxt á næsta ári óraunhæfar.

„Fjárlagafrumvarpið inniheldur tilbúnar tölur á blaði.  Það hryggilega er, að bak við hagtölur – talnagögn og prósentur, er fólk,“ sagði Ólöf.

„Venjulegir Íslendingar sem hrópa á úrræði. Hrópa á hjálp núna fyrir utan þetta gamla hús.  Það er löngu tímabært að hlusta eftir því sem fólk er að segja. Það þarf að fjárfesta í íslenskum heimilum með því að koma þeim til hjálpar núna. [...] Nú er ekki tími fyrir innantómt þvaður – tíma aðgerða er löngu runninn upp. Tími kreppustjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er liðinn.“