Það er alveg sama hversu langan verkefnalista ríkisstjórnin birtir. Ef verkefnin snúa ekki að því að bæta hag heimila og fyrirtækja eru þau að öllum líkindum til einskis. Verkefnin þurfa að vera áþreifanleg. Heimilin og fyrirtækin þurfa að finna að hagur þeirra sé betri í dag en í gær.

Þetta segir Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar Ólöf um setningarræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á landsfundi Samfylkingarinnar sem fram fór um síðustu helgi. Þar gagnrýndi Jóhanna efnahagstillögur stjórnarandstöðuflokkanna og sagði tillögur Sjálfstæðisflokksins hafa komið þremur árum of seint.

Ólöf segir atvinnulífið standa í baráttu við stjórnvöld á hverjum degi og að færri einstaklingar geri sér vonir um bjartari framtíð hér á landi „sem sýnir sig best í því að nú flytur að meðaltali heill fjölskyldubíll af fólki úr landi í hverri viku,“ segir Ólöf.

Þá ítrekar Ólöf að hún hafi margoft, bæði í ræðu og riti, ítrekað það að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að vinna með ríkisstjórninni að góðum málum.

„Nú er það sem betur fer ekki svo að stjórnmálamenn leysi öll heimsins vandamál. En þeir geta unnið saman að nauðsynlegum verkefnum,“ segir Ólöf.

„Þegar þjóðin þarf mest á því að halda að stjórnmálamenn komi sér saman um verkefni sem bæta hag heimila og fyrirtækja kýs forsætisráðherra að hefja nýja orrustu í stríði sínu. Stríði sem beinist gegn öllum þeim sem ekki eru móttækilegir fyrir þröngum skoðunum Samfylkingarinnar. Í stað þess að taka með málefnalegum hætti á móti hugmyndum stjórnarandstöðunnar kýs hún að kasta þeim út í hafsauga með tilheyrandi stríðsyfirlýsingum. Þetta stríð þarf að enda.“

Ólöf segir að það þurfi ekki að koma forsætisráðherra á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka til varna þegar ríkisstjórnin dragi upp úr hatti sínum hverja skattahækkunina á fætur annarri. Það þurfi heldur ekki að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli berjast gegn það sem Ólöf kallar illa ígrunduðum og háskalegum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu þegar mörg hundruð manns í landinu hafa af því atvinnu og sjávarútvegurinn skapi þjóðinni ógrynni af tekjum.

Sjá grein Ólafar í heild sinni.