Ólöf Kristín Sigurðardóttir hefur verið ráðin safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og mun taka við stöðunni þann 1. september næstkomandi. Listasafnið er rekið í þremur húsum; Hafnarhúsinu, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni ásamt því að bera ábyrgð á umsjón útilistaverka í eigu borgarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur.

Síðustu sjö ár hefur Ólöf Kristín gegnt stöðu forstöðumanns Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. Ólöf Kristín var um árabil deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur. Hún hef lokið námi frá School of Art Institute of Chicago árið 2003 og útskrifaðist úr málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989. Jafnframt hefur hún lagt stund á nám í listasögu og heimspeki á Ítalíu og við Háskóla Íslands.