Óeining er innan Sjálfstæðisflokks um það hver eigi að verða næsti varaformaður flokksins. Um þessar mundir beinast sjónir annars vegar að Ólöfu Nordal, núverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi varaformanni flokksins, og hins vegar að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra og núverandi varaformanni.

Ólöf segir hvorki af né á

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er því haldið fast að Ólöfu að bjóða sig fram til embættisins á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október næstkomandi. Ólöf gegndi embættinu frá 2010 til ársins 2013, þangað til Hanna Birna var kjörin varaformaður.

Ólöf hefur ekki útilokað framboð á næsta landsfundi, en vildi þó hvorki segja af né á í þeim efnum, þegar leitað var svara hjá henni við vinnslu fréttarinnar. Er það í samræmi við fyrri yfirlýsingar um sama efni, en í sérblaði Viðskiptablaðsins, Áhrifakonur, sem kom út 9. apríl síðastliðinn var haft eftir Ólöfu: „Ég sagði það þegar ég tók við að ég myndi ekki huga að framboðsmálum strax. Varðandi þetta tiltekna mál þá er varaformaður í flokknum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér í fyrramálið. Meðal annars efnis í blaðinu:

  • Ágreiningur ríkir um notkun á vörumerkinu Ölstofa Hafnafjarðar.
  • Nova og 365 hafa vaxið verulega á fjarskiptamarkaði.
  • Seðlabankastjóri segir grunnrekstur bankanna veikan.
  • Aðstoðarforstjóri Jarðborana hefur látið af störfum.
  • Ísland er í ellefta sæti alþjóðlegs velsældarlista.
  • Ítarleg úttekt um stöðu kjaraviðræðna.
  • Arðsemi Íslandspósts hefur hrakað verulega.
  • Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets er í ítarlegu viðtali.
  • Óðinn fjallar um Aurum málið.
  • Týr fjallar um reglugerðarfargan.
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt fleira.