Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru til þriðja sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík sem haldið verður 13. og 14. mars nk.

Þetta kemur fram í tilkynningu.   Ólöf var í 3. sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi og situr á þingi sem 9. þingmaður kjördæmisins. Hún tilkynnti fyrir skömmu að hún hygðist bjóða sig fram fyrir Reykvíkinga í komandi Alþingiskosningum.

„Framundan eru miklir óvissutímar og því mikilvægt að taka á krefjandi verkefnum af þunga og heiðarleika,“ segir Ólöf í tilkynningunni.

„Eftir 18 ára samfellda setu í ríkisstjórn á miklum uppgangstímum finnst mér það skylda Sjálfstæðisflokksins að bregðast við af festu og leggja sitt af mörkum til þess að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir um stöðu heimilanna í landinu, atvinnulífsins og efnahags þjóðarinnar. Ég er tilbúin til þess að taka þátt í því starfi.“

Þá kemur fram að á Alþingi hefur Ólöf gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum, m.a. verið varaformaður samgöngunefndar, setið í allsherjarnefnd og umhverfisnefnd. Hún  situr í háskólaráði Háskólans á Akureyri, stjórn Handverks og hönnunar, er formaður nefndar á vegum fjármálaráðuneytis um kynbundin launamun og hefur að auki sinnt ýmsum verkefnum á sviði ferðamála og fleira.   Ólöf Nordal er lögfræðingur og MBA að mennt. Hún er gift Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra og eiga þau fjögur börn á skólaaldri.