*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Fólk 28. mars 2019 14:53

Ólöf Þórhallsdóttir til Florealis

Nýr framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hefur verið ráðin til Florealis vegna þekkingar á norrænum mörkuðum.

Ritstjórn
Kolbrún Hrafnkelsdóttir er forstjóri Florealis, en sjá má mynd af Ólöfu Þorkellsdóttur, nýs framkvæmdastjóra sölu- og markaðsviðs félagsins hér að neðan.
Haraldur Guðjónsson

Vegna aukinna umsvifa lyfjafyrirtækisins Florealis á erlendum mörkuðum hefur Ólöf Þórhallsdóttir verið ráðin til félagsins sem framkvæmdastjóri sölu– og markaðssviðs. Ólöf er lyfjafræðingur, stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík og er í stjórn lyfjafyrirtækisins Coripharma Holding ehf.

Ólöf mun leiða markaðssókn fyrirtækisins bæði innanlands og erlendis, en hún er sögð í fréttatilkynningu hafa yfirgripsmikla þekkingu á markaðssetningu lyfja á Íslandi og öðrum Norðurlöndum enda starfað á þeim vettvangi síðastliðin 18 ár.

Ólöf var búsett í Svíþjóð í þar sem hún gegndi m.a. stöðu framkvæmdastjóra Actavis fyrir Norður-Evrópu og var landsstjóri Teva fyrir Danmörku, Noreg og Ísland. 

Með þekkingu á norræna markaðnum

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri Florealis segir það mikinn feng fyrir félagið að fá Ólöfu. „Stjórnendateymið í Florealis er mjög öflugt og með þessari ráðningu bætist við dýpri þekking á markaðssetningu og uppbyggingu dreifileiða á norrænum markaði,“ segir Kolbrún.

„Við stefnum á hraðan vöxt og sókn á nýja markaði með auknu framboði af jurtalyfjum sem byggja á vísindalegum grunni. Sterk tengls Ólafar og reynsla hennar á lyfjamarkaðnum á Norðurlöndum mun gera Florealis kleift að ná fótfestu þar.“

Ólöf sjálf segir lækningavörur Florealis vera af miklum gæðum og geta bætt heilsu fjölda fólks. „Það er því mjög spennandi að taka við starfinu og leiða inngöngu Florealis á Norrænan markað,” segir Ólöf. „Ég hef verið með rekstrarlega ábyrgð í mörg ár og nýt þess að leita lausna og leiða teymi, sérstaklega í uppbyggingarfasa.“

Um Florealis:

Florealis er íslenskt lyfjafyrirtæki sem þróar og markaðssetur jurtalyf og lækningavörur. Vörur fyrirtækisins eru á markaði á Íslandi og í Svíþjóð og verða fáanlegar á öðrum mörkuðum á næstu árum. Höfuðstöðvar Florealis eru í Reykjavík og útibú er starfrækt í Svíþjóð.