Þegar horft er á stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum segir Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, að hún, eins og fleiri, vilji sjá mun fleiri konur í Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.

„Konur í Sjálfstæðisflokknum hafa hins vegar náð langt í stjórnmálum. Við höfum verið með varaformenn, borgarstjóra og ráðherra. Þegar ég varð varaformaður fannst mér það ekki skipta máli að ég væri kona. Ég hef aldrei upplifað mig með þessum hætti ef ég á að segja eins og er. Það þarf að líta til fjölbreytileika og menn verða að átta sig á því að það er ekki hægt að vera bara með karla,“ segir Ólöf.

Ólöf segist hafa viljað treysta því að það verði að vera karl og kona við stjórn eininga. Hún hafi aldrei upplifað sjálfa sig í sínum störfum út frá hvers kyns hún sé.

„Ég veit hins vegar að ég kem með aðra hluti að borðinu af því ég er kona. Það er annar veruleiki sem fylgir því. Aldrei hefur mér fundist, sumar kynsystur mínar verða kannski ekki sáttar, ég hafa fengið nein sérstök tækifæri af því ég er kona né hefur það verið galli á mér. Ég kem úr karlaumhverfi í orkubransanum áður en ég byrjaði í stjórnmálum og fannst það ganga mjög vel. Við þurfum öll að gæta að því að lyfta ungum konum upp og treysta þeim til verkanna. Ég er ekki voðalega hrifin af kvótum og vil ekki þvinga fólk í þetta. Ég vil að þetta komi sjálfkrafa en til þess að það gerist þarftu bæði að hafa sjálfstraust og fólkið í kringum þig þarf að skilja hvað þetta skiptir miklu máli.“

Hún segir það skipta miklu máli fyrir konur að vera ekki allt of uppteknar af því að þær séu konur.

„Það liggur fyrir að maður er kvenmaður, ekki reyna að vera eins og strákarnir, alls ekki. Konur eiga að vera með sinn kvenlega þokka og vera konur. Maður sér konur sem eru glæsilegar út um allan heim eins og Christine Lagarde sem ég er mjög hrifin af og er rosalega glæsileg kona. Eins er Angela Merkel mikill kvenmaður. Það er ekki verið að tala mikið um það en hún er í algjörum sérflokki og mikil fyrirmynd. Thatcher var líka svona kona, engin spurning. Síðan núna forsætisráðherra Danmerkur. Allar þessar konur leiða af sér aðrar konur. Við þurfum svona fyrirmyndir og þurfum að gera okkur sjálfar að fyrirmyndum, það skiptir máli,“ segir Ólöf.

Aðspurð hvort það komi til greina að hún bjóði sig aftur fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins segir Ólöf: „Ég sagði það þegar ég tók við að ég myndi ekki huga að framboðsmálum strax. Varðandi þetta tiltekna mál þá er varaformaður í flokknum.“

Nánar er spjallað við Ólöfu í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .