Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að ekki verði hjá því komist að teknar verði stefnumarkandi ákvarðanir um það hvernig þyrlumálum Landhelgisgæslunnar skuli hagað, en stofnunin hefur kynnt ráðuneytinu tillögur um endurnýjun þyrluflotans á næstu sex árum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Í tillögunum er miðað við að nýjar þyrlur verði keyptar en ekki leigðar. „Við erum núna með tvær þyrlur á leigu og eigum þá þriðju. Þessu fylgir mikill kostnaður en það er einnig gríðarlega mikill kostnaður við að kaupa þyrlur,“ segir Ólöf. Hún segir að skoða þurfi málið vandlega.

„Ég geri ráð fyrir að á næstunni munum við fara nánar ofan í málin, Gæslan hefur farið yfir sín sjónarmið og komið með röksemdir á borðið sem við þurfum að taka afstöðu til. Þetta er grundvallarþjónusta sem Landhelgisgæslan sinnir í björgunar- og öryggismálum og við verðum að hafa þann tækjabúnað sem til þarf til að geta sinnt þessu hlutverki,“ segir Ólöf.