Ólögleg starfsemi, eins og vændi og fíkniefni, er talin velta 6,6 milljörðum króna á hverju ári hér á landi. Þessar tölur verða kynntar í Seðlabankanum í dag. Nýir staðlar Evrópska efnhagssvæðisins verða innleiddir í haust þar sem gerð er krafa um að ólögleg starfsemi sé tekin með inn í þjóðhagsreikninga. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Hagstofa Íslands miðar við tölur úr meistararitgerð Sigurlilju Albertsdóttur hagfræðings frá árinu 2012. Þar kemur fram að Ísland sé á svipuðum slóðum og Tékkland í veltu með fíkniefni sem nemur 0,2% af vergri landsframleiðslu. Í Danmörku og Svíþjóð nær þetta hlutfall ekki 0,1%.