Ríkisútvarpið hefur staðið ólöglega að nokkrum ráðningum dagskrárgerðarmanna í sjónvarpi þar sem lagaskyldu um að auglýsa störfin hefur ekki verið sinnt. Nánar tiltekið er um að ræða fjóra núverandi og fyrrverandi dagskrárgerðarmenn Kastljóss (áður Kastljóssins). Þetta kemur fram í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar alþingismanns.

Sigurjón spurði hve margir og hvaða starfsmenn hefðu verið ráðnir án auglýsingar til RÚV á undanförnum 10 árum til þess að sjá um dagskrárgerð og fréttatengt efni í sjónvarpi.

Laus störf á fréttastofum Ríkisútvarpsins eru auglýst, segir í svari ráðuneytisins. Hins vegar hafi dagskrárgerðarmenn í sjónvarpi nánast allir starfað sem verktakar frá árinu 1997. Ekki hafi verið auglýst eftir starfsmönnum í störf sem unnin eru í verktöku. Á hinn bóginn hafi fjórir dagskrárgerðarmenn verið ráðnir sem launþegar án undangenginnar auglýsingar: Eva María Jónsdóttir (sem hefur látið af störfum), Eyrún Magnúsdóttir, Jóhanna Vilhjálmsdóttir (í hlutastarf) og Þórhallur Gunnarsson.

Í svari ráðuneytisins er tekið fram að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli laus störf við ríkisstofnanir auglýst opinberlega. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins á auglýsingaskyldan einungis við um fastráðningar en ekki störf verktaka. "Ráðuneytið mun beina tilmælum til Ríkisútvarpsins um að stofnunin fari að lögum í þessu efni," segir í niðurlagi svarsins.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki samband við Ríkisútvarpið í gær, en til stóð að spyrja Pál Magnússon útvarpsstjóra hvort hann teldi það viðunandi að geta ekki boðið tilteknu dagskrárgerðarfólki starf nema sem verktakar.