Á síðustu árum hafa ýmis konar eftirlíkingar af framleiðsluvörum, flestar upprunnar í Kína, flætt yfir Vesturlönd. Í grein á vef Samtaka atvinnulífsins kemur fram að Ísland er þar ekki undanskilið en bæði er um að ræða dreifingu á eftirlíkingum af þekktum húsgögnum og einnig öðrum vörum sem eru merktar með vörumerkjum annarra aðila.

Í greininni er bent á að erfitt getur verið fyrir fyrirtæki að verjast þessari meinsemd en í íslenskum tollalögum er að finna heimild fyrir tollyfirvöld að uppfylltum tilteknum skilyrðum að fresta tollafgreiðslu ef sýnt þykir að innflutningur vöru brjóti gegn hugverkaréttindum. Nýleg lög veita einnig heimild fyrir rétthafa sem telja brotin á sér hugverkaréttindi að óska þess að sýslumaður framkvæmi leit í húsakynnum þess sem talinn er brotlegur. Lögunum hefur þegar verið beitt á Íslandi og á þessu ári og síðasta ári gengu dómar í tveim málum hér á landi þar sem niðurstaðan var sú að banna dreifingu eftirlíkinga af þekktum stólum.


Talið er að um 60% af ólöglegum varningi af ýmsu tagi í Evrópusambandinu komi frá Kína.