Samkvæmt mati breskra yfirvalda nemur árlegt tekjutap vegna sölu á ólöglegu áfengi þar í landi um milljarði punda, jafnvirði um 190 milljarða íslenskra króna. Mikið af ólöglegu bruggi er í umferð og er talið að sums staðar sé allt að fjórðungur áfengis ólöglegt. Vandamálið fer vaxandi, að því er BBC greinir frá.

Samkvæmt heimildum BBC sjá skipulagðar glæpaklíkur um framleiðslu og sölu bruggsins, sem framleitt er í miklu magni. Við athugun lögreglunnar í Suðvestur-Englandi í lok síðasta árs kom í ljós að 26% vínveitingahúsa seldu ólöglegt áfengi. Um 17% seldu ólöglegt brugg í Manchester og um 10% í Vestur-Yorkshire.

Á síðustu árum hafa nokkrar verksmiðjur verið upprættar. Í þeim var meðal annars ódýrt rauðvín fært yfir á dýrari flöskur. Þá var verksmiðju lokað í Manchester í október sl. þar sem hald var lagt á 25 þúsund lítra af vodka.