Samkvæmt nýjum japönskum lögum hafa refsingar fyrir ólöglegt niðurhal nú verið hertar til muna. Niðurhal á höfundaréttarvörðu efni hefur verið ólöglegt þar, líkt og víða annarsstaðar, síðan árið 2010.

Miðað við nýju lögin mun ólöglegt niðurhal nú varða allt að tveggja ára fangelsi auk sekta sem geta náð tveimur milljónum japanskra jena eða rúmlega 3,1 milljónum króna. Fyrir þá sem setja höfundarvarið efni inn á netið eru refsingarnar enn harðari og geta náð tíu árum í fangelsi.

Lagabreytingin var samþykkt af japönskum yfirvöldum nú í júní en í kjölfarið lögðust heimasíður japanska fjármálaráðuneytisins, japanskra stjórnmálaflokka og fleiri niður vegna árása tölvuhakkara. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, í dag.

Þessi nýju japönsku lög eru hluti af útbreiddum aðgerðum gegn ólöglegu niðurhali. Í Bandaríkjunum var á árinu heimasíðan Megaupload tekin niður, BitTorrent síðunni Demonoid var lokað í Úkraínu auk þess sem eiganda Surfthechannel deilisíðunnar var stungið í fangelsi.