Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit hjá Skiptum hf. og dótturfélögum þess, Símanum hf. og Tæknivörum ehf. þann 21. apríl sl. Eftir leitina sá Samkeppniseftirlitið ástæðu til að framkvæma einnig leit hjá Hátækni ehf. og móðurfélagi þess Olíufélagi Íslands hf. Ástæðan var grunur um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Samkeppniseftirlitið hefur sent frá sér.

Fyrirtækin eru tveir helstu keppinautar í innflutningi og heildsölu á farsímum og tengdum búnaði. Hátækni er meðal annars umboðsaðili fyrir Nokia síma og Tæknivörur eru meðal annars umboðsaðili fyrir Sony Ericson síma.

Í fréttatilkynningunni segir að í kjölfar húsleitanna snéru Skipti og Tæknivörur sér til samkeppniseftirlitsins og óskuðu, með vísan til samkeppnislaga, eftir því að veita liðsinni við að upplýsa málið. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaganna og gert sátt við Skiptasamstæðuna.

Sáttin felur í sér að Skipti og dótturfélög hafa afhent gögn og upplýst um málsatvik. Það er viðurkennt að Tæknivörur hafi brotið samkeppnislög með umfangsmiklu samráði við Hátækni og fallist er á að greiða 400 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brotanna. Skipti fallast jafnframt á að selja allan eignarhlut sinn í Tæknivörum og Síminn skuldbindur sig til að grípa ekki til aðgerða sem geta raskað samkeppni á markaði fyrir farsíma.

Í fréttatilkynningunni segir að sáttin auðveldi rannsókn Samkeppniseftirlitsins auk þess sem hún hefur mun fyrr en ella í för með sér breytingu á markaðnum og jákvæð áhrif fyrir samkeppni og neytendur. Samkeppniseftirlitið mun ekki kæra stjórnendur hjá skiptasamstæðunni til lögreglu þar sem ákvæði samkeppnislaga eru uppfyllt.

Málinu er lokið gagnvart Skiptasamstæðunni en þáttur Hátækni og eftir atvikum Olíufélags Íslands er enn til rannsóknar.