Allianz Ísland hf. gerir athugasemdir við frumvarp ríkisstjórnarinnar um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.
Telur félagið að frumvarpið mismuni 22 þúsund Íslendingum sem eru viðskiptavinir Allianz. Þeir aðilar ættu ekki kost á því að njóta þess stuðnings og réttinda sem að frumvarpið bjóði upp á. Þetta kemur fram í umsögn Allianz Ísland við frumvarpið.

Kemur fram í umsögninni að viðskiptavinir Allianz myndu ekki sitja við sama borð og annarra vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Því telur fyrirtækið að engin málefnaleg sjónarmið geti legið að baki þeirri mismunun.

Erlend fyrirtæki eins og Allianz nota ólíkt kerfi þegar kemur að nýtingu viðbótariðgjalda.

Telur fyrirtækið enn fremur að: „Ef nota á þetta kerfi til að veita skattaívilnanir eða aðrar ívilnanir er það ólögmæt mismunun og brot á jafnræðisreglu að útiloka einn hóp, þ.e. aðila sem hafa valið sér einn af fjórum möguleikum í kerfinu.“