Frank Ú. Michelsen er þriðji ættliðurinn sem rekur verslunina Michelsen úrsmiði, en verslunin er 105 ára gömul í ár. Frank var mjög ungur þegar hann byrjaði að dvelja löngum stundum í versluninni hjá pabba sínum.

„Ég eiginlega elst upp hérna, er hér með annan fótinn sem strákur og náði varla upp fyrir búðarborðið þegar ég byrja að hjálpa til við að afgreiða. Ég fer á samning hjá pabba 1972 og fer í nám til Sviss, var fyrstur Íslendinga til þess að fara í skóla til Sviss, og klára mitt nám 1978. Frá 1972 unnum við hlið við hlið,“ segir Frank og bætir við að sú reynsla sem faðir hans hafi miðlað til sín hafi verið gríðarlega mikil og hann búi enn að henni í dag. Verslunin var upphaflega rekin í Sýslumannshúsinu á Sauðárkróki, þar sem í dag er Kaffi Krókur og var rekin þar fram á stríð. „Pabbi fer í læri hjá afa og fer svo til Kaupmannahafnar, tekur danska úrsmíðaskólann og fer svo að starfa í Kaupmannahöfn,“ segir Frank.

Faðir hans hafði síðan ætlað að fara til Berlínar og þaðan til Genfar en sneri heim þegar Þjóðverjar hertóku Danmörku. „Síðan fljótlega eftir að hann kemur 1943 stofnar hann verslun hér fyrir sunnan. Þeir voru með tvær búðir í einu, afi fyrir norðan og hann hér á Vesturgötunni. Í stríðslok lokar afi búðinni fyrir norðan og flytur suður og þá er bara ein búð eftir sem síðan flytur fljótlega frá Vesturgötu og upp á Laugaveg 39. Þar vorum við til ársins 1992 og þá flytur verslunin hingaðá Laugaveg 15,“ segir Frank.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .