Um hundrað manns mættu á Bjórhátíðina á Hólum í Hjaltadal sem var haldin í þriðja sinn um þarsíðustu helgi. Allir framleiðendur bjórs á Íslandi mættu auk fulltrúa Bjórsetursins á Hólum og innflytjandans Elgs ehf. Gestir hátíðarinnar gátu smakkað á tæplega 50 mismunandi bjórum af ýmsum stílum. Með bjórnum var einnig boðið upp á þýskar pylsur, hægeldað rifið svínakjöt og saltkringlur.

Kosning fór fram á meðal gesta hátíðarinnar um besta bjórinn en að þess sinni var Vatnajökull frá Ölvisholti valinn sá besti. Hann er bruggaður úr ísjökum sem teknir eru úr Jökulsárlóni, kryddaður með blóðbergi og fæst einungis á veitingastöðum í nágrenni Vatnajökuls. Arctic Berry Ale frá Vífilfelli var í öðru sæti og Tumi Humall IPA frá Gæðingi í þriðja sæti. Ölgerðin þótti eiga besta básinn á hátíðinni og sigraði Ragnar Elías Ólafsson svo hið árlega kútarall.