Algengasta ástæða þess að trygginafélög eiga endurkröfurétt á tjónvalda í umferðinni er ölvun tjónvalds. Þetta kemur fram í tilkynningu frá endurkröfunefnd.

Endurkröfunefnd bárust í fyrra 199 ný mál til úrskurðar. Af þessum málum samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 188 málum. Á árinu 2011 var heildarfjöldi mála hins vegar 132, og samþykktar endurkröfur að öllu eða einhverju leyti voru 127.

Ástæður endurkröfu í fyrra voru oftast ölvun tjónvalds, þ.e. í 126 tilvikum, eða í 67% endurkrafnanna. Lyfjaáhrif, einkum vegna ávana- og fíkniefna, var næst algengasta ástæða endurkröfu. Voru þau tilvik 49, eða í 26% málanna.

Í 9 málum voru ökumenn endurkrafðir sökum ökuréttindaleysis. Vegna ofsa- eða glæfraaksturs voru 16 ökumenn endurkrafðir og 4 vegna stórfellds vanbúnaðar ökutækis eða farms. Loks var mælt fyrir um endurkröfu í 7 málum vegna beins ásetnings ökumanns um að valda tjóni. Í sumum málum geta ástæður endurkröfu verið fleiri en ein.