Fjölmörg fyrirtæki í bresku kauphöllinni hafa hækkað í verði vegna tengsla þeirra við framkvæmd Ólympíuleikanna 2012. Efnahagsforsendur hafa þó breytt um formerki frá því að ákveðið var að leikarnir yrðu í London.

Þegar ákveðið var að Ólympíuleikarnir árið 2012 skyldu haldnir í London var efnahagslífið í blóma og FTSE vísitalan í 5.229 stigum. Fimm árum síðar ganga þjóðir heimsins í gegnum eina dýpstu kreppu sögunnar og FTSE vísitalan langt frá fyrra gildi.

Síðla árs 2008 sagði Tessa Jowell, sem þá fór með yfirstjórn Ólympíuleikanna, að ef Bretar hefðu haft vitneskju um hvað væri í vændum þá hefði London aldrei sóst eftir að halda leikana. 9,3 milljarða punda kostnaður væri einfaldlega of mikil viðbót við nærri 1000 milljarða skuldir landsins.

Stjórnarformaður bjartsýnn

Sá sem fer fyrir Ólympíunefnd borgarinnar er þrátt fyrir efnahagsaðstæður bjartsýnn og telur að áhrifin verði afar góð fyrir borgina. Það gildi ekki síst við ríkjandi aðstæður.

Í viðtali við breska blaðið The Daily Telegraph segir John Armitt, stjórnarformaður Ólympíunefndarinnar, að einungis sex mánuðum eftir að tilkynnt var um að leikarnir yrðu haldnir í London var kreppan skollin á. „Ef ekki hefði komið til efnahagssamdráttar í heiminum værum við nú að berjast við að halda niðri verðbólgu. En á móti hefðum við ekki þurft að ganga á okkar eigin sjóði til að byggja ólympíuþorpið,“ segir Armitt.

-Nánar í Viðskiptablaðinu