Mikillar óánægju gætir meðal farþega sem hafa farið um Heathrow flugvöllinn í London að undanförnu. Hafa farþegar kvartað sáran undan seinagangi og löngum biðröðum við landamæraeftirlit flugvallarins. Sumir hafa gengið svo langt að lýsa aðstæðum á flugvellinum sem „ómannúðlegum“. Rætt er um að biðin geti verið allt að sjö klukkutímar, að því er BBC greinir frá .

Sökum COVID-19 heimsfaraldursins er mikið eftirlit með því hverjum er hleypt inn í landið. Hefur stéttarfélag landamærastarfsmanna á flugvellinum sagt að aðgerðir á landamærum sem ætlað er að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið hafi hægt verulega á ferlinu. Aðgerðirnar kalli á að fleira starfsfólk í landamæragæslu og hægaganginn megi að mestu rekja til undirmönnunar.

Rekstraraðilar Heathrow flugvallarins hafa hvatt bresk stjórnvöld til að gæta þess að af nægu starfsfólki sé að skipa til að anna eftirspurn.

Í samtali við BBC segir Alicia nokkur frá reynslu sinni af seinaganginum á Heathrow flugvellinum. Hún kveðst hafa farið í röðina við landamærin klukkan 18:30 á sunndagskvöldi. Klukkan 1:30 aðfararnótt mánudags var henni loks hleypt inn í landið, sjö klukkustundum eftir að hún hóf biðina í röðinni.