Ómar Benediktsson, forstjóri Farice og varaformaður stjórnar Icelandair Group, keypti ekki hluti í Icelandair með þeim hætti sem ráða mátti af tilkynningu til Kauphallarinnar á fimmtudaginn.

Í tilkynningunni kom fram að Ómar hefði keypt 10,76 milljónir hluta á genginu 7,15 krónur á hlut, fyrir samtals 77 milljónir króna klukkan 14:26 á fimmtudaginn. Gengi hlutabréfa í Icelandair stóð í 7,28 krónum á hlut við lok viðskipta á fimmtudaginn og hækkaði því um 2% eftir viðskipti Ómars.

Icelandair hefur sent frá sér leiðréttingu þar sem fram kemur að ekki hafi verið um eiginlega viðbót að ræða heldur hafi Ómar selt allan hlut sinn í félaginu Traðarhyrnu, sem stofnað var um kaup á hlutum í Icelandair, í skiptum fyrir umrædda hluti í Icelandair. Hlutirnir runnu inn í félagið NT ehf. sem er í eigu Ómars. Hann er því ekki lengur hluthafi í Traðarhyrnu.

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 2,8% í viðskiptum dagsins og stendur gengi bréfanna nú í 6,8 krónum á hlut.