Ómar Benediktsson framkvæmdastjóri Farice ehf., hefur ákveðið að hætta en starfið var auglýst í Fréttablaði helgarinnar.

Ómar staðfesti við Viðskiptablaðið að hann væri að hætta og segist hann vera að fara að einbeita sér að eigin fjárfestingarverkefnum á ný, en hann hafi lært mikið af því að starfa fyrir Farice og það hafi verið góður tími. Jafnframt muni hann nú hafa meiri tíma til að stunda golf.

Býst hann við að láta af störfum uppúr miðjum mars þegar nýr framkvæmdastjóri hefur verið fundinn, en hann er jafnframt að hætta þá í stjórn Landsnets og stjórn Icelandair í byrjun mánaðarins. Ómar er með B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Ómar hefur verið í stjórn, og varaformaður stjórnar Icelandair frá aðalfundi í mars 2017, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var það hópur fjárfesta sem vildi fá hann inn í stjórnina eftir miklar lækkanir á gengi bréfa félagsins. Hann hlaut ekki náð tilnefninganefndar í kjör í stjórn Icelandair fyrir aðalfundinn 6. mars næstkomandi. Í stað tveggja Íslendinga koma fulltrúar erlendra fjárfesta sem keypt hafa stóran hluta í félaginu.

Ómar hefur verið framkvæmdastjóri Farice frá því í janúar 2012. Þar áður var hann framkvæmdastjóri baltneska flugfélagsins SmartLynx Airlines frá 2009 til 2011, Air Atlanta frá 2005 til 2006 og Íslandsflugs frá 1997 til 2004, auk þess að hafa verið varaformaður stjórnar Icelandair árin 2007 til 2009.

Í auglýsingunni fyrir nýjum framkvæmdastjóra Farice sem birt var í Fréttablaðinu í dag kemur fram að framundan séu mikilvæg verkefni í viðskiptaþróun og stefnumótun, en félagið sem stofnað var árið 2002 rekur tvo gagnaflutningssæstrengi milli Íslands og Evrópu.