Ómar Ragnarsson var í hópi styrkþega í dag þegar 5 milljónum króna var veitt í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans.

Veittir voru 14 styrkir, sex að upphæð 500 þúsund hver og átta að fjárhæð 250 þúsund krónur. Ríflega 130 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Ómar Ragnarsson hlaut 500 þúsund króna styrk til að gera myndefni um utanvegaakstur og áhrif slíks á íslenska náttúru.

Dæmi um annað verkefni sem hlaut styrk er „Hreinn ávinningur“. Því verkefni er ætlað að kenna komandi kynslóðum að ganga vel um náttúruna og stuðla að betri vitund um umhverfið. Þá ætlar Framkvæmdasjóður Skrúðs að endurnýja merkingar og upplýsingaskilti í Skrúði í Dýrafirði en Vinir Skaftholtsrétta ætla að byggja upp fornar fjárréttir.

Í dómnefnd sátu: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.