Vodafone hefur samið við kínverska tæknifyrirtækið Huawei, umsvifamesta framleiðanda farsímabúnaðar í heimi, um samstarf til næstu fimm ára. Með samningnum tryggir Vodafone sér aðgengi að vél- og hugbúnaði eftir þörfum. Samningurinn tengist bæði uppbyggingu á fjórðu kynslóðinni í gagnaflutningstækni (4G) og endurnýjun á núverandi kerfi (3G og GSM) á komandi árum.

Fram kemur í tilkynningu frá Vodafone að við samningagerðina hafi Vodafone notið ráðgjafar erlendra sérfræðinga Vodafone Group. Skuldbinding félagsins vegna samningins er vel innan þeirra viðmiða félagsins sem hafa verið gefnar út, en samkvæmt þeim er miðað við að fjárfestingar séu á bilinu 8 – 12% af tekjum.

Í tilkynningunni er haft eftir Ómari Svavarssyni, forstjóra Vodafone, að með samningnum hafi fyrirtækið lagt grunninn fyrir uppbyggingu háhraða farsímanets og búið það undir þann mikla vöxt í gagnaflutningum í farsímakerfinu sem framundan er.