Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar og oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, gefur áfram kost á sér í 1. sæti á framboðslista flokksins vegna sveitarstjórnarkosninga nú í vor.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ómari sem verið hefur bæjarfulltrúi síðastliðin tvö kjörtímabil og er hann formaður bæjarráðs á yfirstandandi kjörtímabili.

Í tilkynningunni kemur fram að aðaláherslumál Ómars á næsta kjörtímabili verða að tryggja öflugan rekstargrunn Kópavogsbæjar og standa vörð um þá þjónustu sem er í boði hjá sveitarfélaginu og efla hana enn frekar. Eins vill hann láta skoða vel aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu atvinnulífsins, t.d. varðandi Þríhnjúkagíg í tengslum við ferðamennsku, og skoða möguleika Vatnsveitu Kópavogs á útflutningi og/eða átöppun á vatni.

Ómar er búfræðingur frá Hvanneyri, stúdent frá FÁ og íþróttakennari frá Laugarvatni. Hann stundaði nám í þjálfun og stjórnun í Íþróttaháskólanum í Osló, lauk námi í Hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ, hefur lokið námi í Mannauðsstjórnun til MA prófs í HÍ, en lokaáfanganum, MA ritgerðinni er ólokið.

Að loknu námi í Íþróttakennaraskólanum starfaði Ómar sem grunnskólakennari í Mývatnssveit auk þess sem hann hélt íþróttanámskeið fyrir börn og unglinga á Húsavík og í Hrísey. Ómar hefur jafnframt unnið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Að loknu námi í Noregi var hann rekstrarstjóri íþróttahússins Digraness og starfaði síðan sem íþrótta- og tómstundafulltrúi Bessastaðahrepps. Síðastliðin 10 ár hefur Ómar verið forstöðumaður Kópavogsvallar.

Ómar hefur starfað fyrir Framsóknarflokkinn í Kópavogi í mörg ár. Hann var m.a. formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Kópavogi í 5 ár og formaður Framsóknarfélags Kópavogs í 2 ár.

Ómar Stefánsson hefur verið búsettur í Kópavogi nánast alla ævi. Hann er 43 ára, kvæntur Arnheiði Skæringsdóttur svæfingarhjúkrunarfræðingi, og þau eiga þrjú börn, Ósk Hind 11 ára, Ástu Hind 8 ára og Ómar Bessa 5 ára.