„Þetta er hluti af þeirri áætlun okkar að bæta samskiptin og upplýsa okkar viðskiptavini betur hvaða verkefni við erum að fást við þessa stundina.“ segir Ómar Svavarsson forstjóri Vodafone en félagið sendi í gær frá sér bréf til viðskiptavina þar sem komið er inn hvað Vodafone hyggst gera til að nýta reynslu undanfarinna mánaða til að styrkja félagið. Á meðal efnis eru tæknilegar breytingar, nýtt áhættumat og samstarf við Vodafone Group á sviði öryggismála. Eins og áður hefur verið fjallað um þá braust tölvuhakkari inn á vef Vodafone og birti ýmis gögn sem tekin voru af vef félagsins.

„Miðað við það hvar við stöndum í dag, nýlega búnir að kynna uppgjör, og hvar við stóðum þegar þetta átti sér stað þá held ég að við getum verið stoltir en verkefnið er ærið. Það er að byggja upp aftur það traust sem lækkaði og ekki síður ímynd og styrk félagsins út á við. Það er bara verkefnið og sannarlega áttum við okkur  á mikilvægi þess,“ segir Ómar. Hann segir að viðskiptavinir Vodafone hafi sýnt sig að vera traustur og tilbúinn til að leggja sitt á vogaskálarnar við að ráðleggja og koma með ábendingar. "