Deila Fosshótels Reykjavíkur og Íþöku fasteigna þarf að fara aftur fyrir héraðsdóm vegna formgalla á fyrri dómsúrlausn. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í málinu.

Áhugafólk um samningarétt hafði beðið dóms í málinu en í því er deilt um það hvort Fosshótel beri að greiða umsamda leigu á meðan sóttvarnaaðgerðir stóðu sem hæst eða hvort heimilt sé að víkja því ákvæði leigusamningsins til hliðar.

Niðurstaða fjölskipaðs héraðsdóms var sú að víkja leigusamningi aðila til hliðar tímabundið á þann veg að Fosshótel bar að greiða helming leigunnar frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Sótt var um áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar og var fallist á það – er það aðeins í annað sinn sem mál fær að hoppa yfir Landsrétt – og var það gert á þeim grunni að afar brýnt væri að fá endanlega niðurstöðu í málið þar sem niðurstaðan gæti haft áhrif á fleiri samninga.

Í héraði hafði Fosshótel uppi kröfu um að leigusamningnum yrði vikið til hliðar en Íþaka hafði á móti uppi greiðslukröfu. „Í dóminum var einungis leyst úr viðurkenningarkröfunni en að þeirri niðurstöðu fenginni var ekki dæmt um greiðslukröfu [Íþöku]. Slík dómsúrlausn veitir [Íþöku] ekki heimild til að leita aðfarar enda felur dómsorð hins áfrýjaða dóms ekki í sér skyldu sem framfylgt yrði með slíkri gerð,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Sagði dómurinn að það ætti við þótt dómsorðið hefði kveðið á um að Fosshótelum bæri að greiða hluta hinnar umsömdu leigu þar sem fjárhæð hennar var ekki tiltekin í dómsorði. Að mati réttarins hafði Íþaka lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort hann eigi fjárkröfu á hendur Fosshótelum og bar héraðsdómi að leysa úr því.

„Dómaframkvæmd ber þannig með sér að gerðar eru ríkar kröfur í þessum efnum. Fyrrgreindur annmarki á héraðsdómi er slíkur að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann án kröfu og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Af dómi Hæstaréttar má ráða að bæði Íþaka og Fosshótel hafi talið umræddan formgalla vera bersýnilega villu í dómi einkamálalögin heimiluðu að dómari leiðrétti. Ekki var fallist á það af hálfu Hæstaréttar „auk þess sem fram kom við flutning málsins hér fyrir dómi að aðilum ber ekki saman um hvernig leiðrétta skuli dóminn með tilliti til forsendna hans“.

Fyrri úrlausn var því ómerkt og málið sent aftur heim í hérað. Málskostnaður fyrir Hæstarétti var felldur niður milli aðila.