Héraðsdómur í máli Drífu ehf. gegn Isavia ohf. hefur verið ómerktur með dómi Landsréttar í dag. Ástæðan fyrir ómerkingunni er það mat Landsréttar að héraðsdómara hefði verið rétt að kveða sérfróðan meðdómanda til setu í dóminum.

Málið var upphaflega höfðað árið 2014 en það varðar forval Isavia vegna verslunar- og veitingaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Drífa hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndarinnar og taldi ýmsa annmarka vera á framkvæmd útboðsins. Höfðaði félagið mál til heimtu rúmlega 1,5 milljarðs króna í skaðabætur auk vaxta og dráttarvaxta.

Í héraði var sakarefni málsins skipt þannig að aðeins var fjallað um hvort bótaskylda hefði stofnast. Þar var Isavia sýknað á þeim grunni að ekki hefði verið sannað að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu eða ólögfestum grunnreglum stjórnsýsluréttarins.

„Í málinu reynir meðal annars á það álitaefni hversu hagstætt tilboð [Drífu] hafi verið og hvort matsnefndin hafi með málefnalegum hætti komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt skilmálum forvalsins hafi tilboðið verið óraunhæft. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi og fram kemur í framburði matsnefndarmanna studdist mat á tilboðum í forvalinu við sérfræðiþekkingu matsnefndarmanna og þær sérhæfðu valforsendur sem settar voru fram í 7. og 8. kafla seinni hluta forvalsgagna,“ segir í dómi Landsréttar.

Að mati Landsréttar þurfti að meta fjárhagsáætlanir og rekstraráætlanir Drífu hafi verið raunhæfar miðað við tæknilega hluta forvalsins. Til þess hafi þurft sérfræðiþekkingu. Því hafi dómara málsins borið að fá sérfróðan meðdómanda sér við hlið. Þar sem það var ekki gert þótti óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn.