Hæstiréttur hefur ómerkt úrskurð Landsréttar í máli ALC gegn Isavia. Að mati réttarins voru verulegir ágallar á meðferð málsins í Landsrétti og því óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa honum á ný til Landsréttar.

Sem kunnugt er hefur flugvél ALC, sem Wow air hafði á leigu, verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli til tryggingar skuldum Wow við Isavia. ALC fór fram á að vélin yrði afhent sér með beinni aðfarargerð en því var hafnað bæði í héraði og Landsrétti.

Skuld Wow við Isavia nemur um tveimur milljörðum króna. Varakrafa ALC hljóðaði upp á að vélin væri aðeins til tryggingar skuldinni sem umrædd vél stofnaði til en hún er í kringum 80 milljónir króna. Á það féllst héraðsdómur í rökstuðningi sínum þó ekki hefði verið fjallað um það í úrskurðarorði. Rökstuðningur Landsréttar var á móti á annan veg þó úrskurðurinn hafi verið staðfestur. Í báðum tilfellum var aðfararbeiðninni hafnað.

Í dómi Hæstaréttar nú var á það bent að aðeins Isavia hefði kært úrskurð héraðsdóms. ALC gerði það aftur á móti ekki. Fyrir Landsrétti gerði ALC kröfu um að málinu yrði vísað frá Landsrétti en til vara að hinn kærði úrskurður yrði staðfestur. Isavia gerði aftur á móti kröfu um staðfestingu á úrskurðinum. Kröfur aðilanna voru því í raun þær sömu þó Isavia hafi farið fram á að forsendum úrskurðarins yrði breytt.

Hæstiréttur taldi að af málsforræðisreglu einkamálaréttarfars leiddi að í dómsúrlausn verði ekki tekin afstaða til málsástæðna að baki kröfu eða hluta hennar, enda hafi aðilar forræði á sakarefninu, heldur verður niðurstaðan reist á samþykkinu einu og sér.

„Gildir þá einu hvort aðili lýsi sig sammála málsástæðum gagnaðila síns eða samþykki kröfu hans af allt öðrum sökum en þeim, sem gagnaðilinn hefur byggt á með málsástæðum sínum,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Af þeim sökum hefði Landsrétti borið að hafna aðfararbeiðninni, og staðfesta þar með úrskurð héraðsdóms, án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda fyrir henni og leysa síðan eingöngu úr ágreiningi um málskostnað. Engu máli skipti hvort röksemdir héraðsdóms um önnur atriði hafi ekki getað staðist.

Úrskurðurinn var því ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar. Isavia var dæmt til að greiða ALC milljón í málskostnað.