Fyrirtækið Omnis hefur hlotið gullvottun sem Microsoft-samstarfsaðili.

Í tilkynningu frá Omnis þýðir þetta að Omnis og starfsmenn þess hafi staðist ítrustu kröfur Microsoft og séu í hópi þeirra sem mesta þekkingu hafa á lausnum fyrirtækisins.

Gullvottunin er alþjóðlegur mælikvarði sem Microsoft notar til að meta samstarfsaðila sína og er tekið tillit til ýmissa þátta á borð við þekkingu starfsmanna og árangur í sölu, þjónustu og þróun á Microsoft-lausnum.

„Vottunin er mikilvægur áfangi fyrir Omnis, sem hefur vaxið hratt síðustu misseri, en á tveimur árum hefur starfsmönnum fjölgað úr tveimur í tuttugu,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að stærstur hluti starfsemi Omnis er á Vesturlandi og á Suðurnesjum auk þess sem fyrirtækið sinnir viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið leggur megináherslu á uppsetningu og þjónustu við upplýsingatæknikerfi smærri og meðalstórra fyrirtækja en langflest fyrirtæki á Íslandi falla í þann hóp.

„Gullvottun Microsoft skiptir miklu máli fyrir fyrirtæki eins og okkar, sem er tiltölulega ungt en hefur vaxið hratt og aukið þjónustuframboðið jafnt og þétt,“ segir Eggert Herbertsson, framkvæmdastjóri Omnis í tilkynningunni.

„Góð þekking á helstu upplýsingatæknilausnum er afar mikilvæg til að geta ráðlagt viðskiptavinum hvaða lausnir henta best hverju sinni og í framhaldinu innleiða og þjónusta viðkomandi lausnir. Trúverðugleiki er mikilvægur í slíkum verkefnum og með þessum áfanga sýnum við að Omnis standist strangar alþjóðlegar kröfur Microsoft. Við erum stolt af því að hafa náð svo langt í uppbyggingu þekkingar og reynslu innan fyrirtækisins á þjónustu við hugbúnaðarlausnir Microsoft.“

Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi segir Omis vel að þessum áfanga komið og fyrirtækið hafi komið sterkt inn á markaðinn síðustu misseri.

„Það er mikilvægt að hafa öfluga samstarfsaðila Microsoft á landsbyggðinni en skiptir ekki síður máli að hér er komið fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri í þjónustu við smærri og miðlungsstór fyrirtæki sem er eins og gefur að skilja stór hluti af viðskiptavinum okkar hér á landi. Við óskum Omnis til hamingju með frábæran árangur,“ segir Halldór í tilkynningunni.