*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 22. nóvember 2011 17:20

Omnis og Upplýsingatæknifélagið UTF sameinast

UTF er tækniþjónusta við fyrirtæki og stofnanir. Omnis rekur hýsingarþjónustu og fjórar tölvuverslanir

Ritstjórn
Aðsend mynd

Nýlega gengu forsvarsmenn Omnis og Upplýsingatæknifélagsins UTF frá sameiningu félaganna undir heitinu Upplýsingatæknifélagið Omnis. UTF hefur á að skipa öflugu fólki með mikla reynslu og þekkingu í tækniþjónustu við fyrirtæki og stofnanir ásamt verkstæðisþjónustu og fellur vel að starfsemi Omnis að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Omnis rekur hýsingarþjónustu, tækniþjónustu og fjórar tölvuverslanir, í Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi og Reykjanesbæ. Hjá sameinuðu fyrirtæki munu starfa um 30 manns.

Samhliða sameiningunni flytur félagið tækniþjónustuna í nýtt húsnæði að Ármúla 11 í Reykjavík en þar opnaði Omnis glæsilega tölvuverslun nýlega. Framkvæmdastjóri félagsins verður Eggert Herbertsson. Hann segir þessa sameiningu og opnun verslunar í Reykjavík verða mikla lyftistöng fyrir bæði Omnis og UTF.

Omnis hafi undanfarin ár stefnt að starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og það sé loks að gerast með afgerandi hætti. Erlendur Ísfeld, sem áður var framkvæmdastjóri UTF segist ánægður með þetta skref í fréttatilkynningu og að framundan séu spennandi tímar hjá öflugu fyrirtæki. Framundan hjá Upplýsingatæknifélaginu Omnis er nú að kynna þessar breytingar fyrir viðskiptavinum félagsins og sækja á markaðinn af krafti.

Stikkorð: Omnis