Upplýsingatæknifyrirtækið Omnis hefur samið við Microsoft um að gerast söluaðili fyrir Windows Azure. Samningurinn er liður í því markmiði Omnis að verða leiðandi í skýjaþjónustu en fyrirtækjum sem nota Azure tölvukerfið hefur fjölgað mjög hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Omnis er eitt af stærri fyrirtækjum landsins í rekstri tölvukerfa, með alls 35 starfsmenn. Það er með starfsstöðvar á fjórum stöðum á SV-horninu frá Borgarnesi til Reykjanesbæjar og annast stóran hluta af upplýsingatækniþörf fjölmargra sveitarfélaga og stofnana og einnig fyrir fjölda fyrirtækja.

Eggert Herbertsson, framkvæmdastjóri Omnis, segir að einstaklingar séu farnir að geyma mestöll gögn sín í skýinu og það sé engin ástæða fyrir fyrirtæki að gera ekki slíkt hið sama. Þau þurfa hins vegar að huga að ýmsu áður en þau taka skrefið; svo sem öryggi gagna og að því allir starfsmenn geti unnið í og nálgast sömu gögn á einfaldan hátt. Hann segir Azure, sem er sérstakt tölvukerfi í skýi Microsoft, vera sérstaklega sniðið að störfum fyrirtækja. Nær allt sem þau gerðu áður sjálf eða í ólíkum kerfum svo sem að reka SQL gagnagrunna, vefhýsingu, sýndarnetþjóna og gagnasvæði er innifalið í Azure. Hann segir það vera í þokkabót svo vel hannað að allir geta lært að nota það, sem á móti minnkar mjög kostnað fyrirtækjanna.

Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft, segist hlakka til samstarfsins við Omnis. Hann segir þetta vera flott fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri í þjónustu við smærri og miðlungsstór fyrirtæki sem eru stór hluti af viðskiptavinum Microsoft hér á landi. Það má segja að hugbúnaðarlausnir í skýinu séu stærsta byltingin í upplýsingatækni í áraraðir. Hann segist því halda að aðgangur fyrirtækja að Azure geti breytt því hvernig þau nýta sér upplýsingatækni og á sama tíma lækkað kostnað.