Súkkulaði íslenska félagsins Omnom má nú finna í 280 Whole Foods-verslunum víðs vegar um Bandaríkin. í Bandaríkjunum eru reknar 500 Whole Foods-verslanir og því er hægt að finna vörur Omnom í ríflega helmingi verslana Whole Foods.

„Boltinn fór almennilega að rúlla í fyrra eftir að við komumst í verslanir Whole Foods í Kaliforníu, en eftir þetta Netflix- og Zac Efron-ævintýri fóru tvær deildir innan Whole Foods að berjast um okkur, sérvörudeildin og matvörudeildin. Það endar með því að sérvörudeildin klófestir súkkulaðið okkar," segir Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri Omnom.

Sjá einnig: Súkkulaðið uppselt eftir heimsókn Efron

Velta Omnom nam 439 milljónum króna á síðasta ári og jókst um tæplega 27% frá fyrra ári. Óskar sér fram á að veltan muni aukast aftur í ár. „Mínar áætlanir gera ráð fyrir því að veltan fari yfir hálfan milljarð króna. Það er samt erfitt að bera þetta ár saman við þetta skrýtna ár í fyrra. Það varð mjög mikill samdráttur og svo mjög mikil aukning seinni hluta ársins."

Útflutningur til Kína hafinn

Óskar er bjartsýnn á framtíðina, en heildsalan í Bandaríkjunum er nú þegar orðin 75% af því sem hún var í fyrra. Þá hefur flugstöðin aftur byrjað að panta vörur félagsins eftir rúmlega eins árs hlé, en hún var stærsti einstaki viðskiptavinur Omnom.

Auk Bandaríkjanna hefur Omnom verið að flytja vörur sínar til Þýskalands. Nýverið hóf fyrirtækið útflutning til Danmerkur, Noregs og Kína. „Við vorum að gera samning um útflutning til Kína, þar sem vörur okkar verða seldar á netinu. Fyrirtækið flytur inn súkkulaðið, markaðssetur það og selur í Kína."

Óskar segir að velta Omnom skiptist jafnt á milli Íslands og útlanda. Meginpartur erlendu veltunnar kemur frá Bandaríkjunum en um 80% af heildarútflutningi fyrirtækisins fer til Bandaríkjanna. „Við erum búin að vera lengst þar og búin að setja mesta púðrið í þann markað."

Vinsældirnar jukust í kjölfar innslags Zac Efron

„Árið í fyrra var merkilegt fyrir þær sakir að veltan dróst mikið saman og við þurftum að nýta okkur hlutabótaleið stjórnvalda. Síðan var innslagið með Zac Efron sýnt á Netflix í júlí. Í kjölfarið fór allt á fullt og við gátum hætt að nýta okkur aðgerðir stjórnvalda."

Gífurleg eftirspurn var eftir súkkulaði Omnom í kjölfar innslagsins og seldist súkkulaði fyrirtækisins upp. Óskar segir að með vaktabreytingum hafi verið hægt að tvöfalda framleiðsluna. „Miðað við átta tíma vaktir getum við framleitt 6.500 plötur. Það mun alveg duga okkur út þetta ár og jafnvel næsta ár."