*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 2. júlí 2020 11:07

Omnom í verslanir Whole Foods

Súkkulaði Omnom er komið í verslanir Whole Foods sem eflir fyrirtækið eftir erfiða mánuði, að sögn framkvæmdastjórans.

Sigurður Gunnarsson
Kjartan Gíslason og Óskar Þórðarson
Baldur Kristjánsson

Súkkulaði íslenska fyrirtækisins Omnom er komið í sölu í 25 Whole Foods verslunum á North West svæðinu í Bandaríkjunum, þar á meðal í Kaliforníu. „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur, sérstaklega núna þar sem um 50% af tekjum okkar hurfu á einu bretti út af fækkun ferðamanna,“ segir Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri Omnom.

„Þeir höfðu samband við okkur fyrst árið 2014 en þá sögðum við nei vegna stöðu okkar á þeim tíma. Stefnan okkar þá var að bíða aðeins og byrja á að byggja upp hóp viðskiptavina í minni verslunum,“ segir Óskar 

„Síðan í febrúar síðastliðnum kom aftur teymi frá Whole Foods og smakkaði vörurnar okkar. Í fyrradag byrjuðu svo að berast pantanir frá Whole Foods North West California Region sem menn segja að sé eitt flottasta Whole Foods svæðið, en þar er til að mynda Palo Alto svæðið. Við erum núna betur í stakk búnir að standa undir þessum pöntunum.“ 

Hann segir að þegar maður er kominn inn á eitt svæði hjá keðjunni og búinn að fara í gegnum ferlið að þá sé auðveldara fyrir önnur svæði að taka vöruna inn. „Svo tekur við sú vinna að þjónusta fleiri svæði“. 

Horfa til Bandaríkjanna

Hann segir að útflutningur geti vegið hátt í 20% af veltu fyrirtækisins í ár, samanborið við rúmlega 10% í fyrra, og að Bandaríkin spili þar stórt hlutverk. „Ég held að Ameríkumarkaður sé mest spennandi fyrir okkur. Hann er erfiðastur en  gefur vel þegar þú ert búinn að ná tökum á honum.“

Fyrirtækið á einnig í viðræðum við stóra dreifingaraðila í Noregi og Danmörku. Að sögn Óskars hafa Omnom vörurnar fengið góðar viðtökur í Þýskalandi og fyrirtækið hefur einnig byrjað að selja í netsölu í Kína. 

Helmingur af sölunni kemur frá ferðamönnum

„Við sáum það þegar ferðamenn hættu að koma, hvað túristinn hefur verið stórt hluti af okkar sölu, alveg hátt í 50%. Þeir versluðu í flugstöðinni, litlum sérvöruverslunum og líka mikið í matvöruverslunum. Sala í Bónus á Laugarvegi síðasta sumar og núna í vetur fyrir Covid gekk rosalega vel,“ segir Óskar.   

Omnom nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda sem Óskar segir að hafi í raun bjargað fyrirtækinu. Þeim tókst að halda framleiðslu gangandi í gegnum faraldurinn þó að hún hafi verið um 25-30% miðað við fyrra far. Óskar gerir ráð fyrir að framleiðslan dragist saman um 30-40% í ár frá árinu áður en segir þó erfitt að spá fyrir um næstu mánuði.  

Á Íslandi eru vörur Omnom meðal annars seldar í verslunum Bónus, Hagkaups og nú síðast í verslunarkeðjum Samkaupa. „Áherslan okkar eftir Covid hefur verið að reyna að bæta aðgengi fyrir Íslendinga og bæta stöðu okkar á íslenska markaðinum." 

Velta Omnom árið 2019 nam 343 milljónum króna sem er um 30% aukning frá fyrra ári. Í dag starfa 16 manns hjá fyrirtækinu.