„Við erum búnir að vera að skipuleggja þetta mjög lengi, en það er verið að standsetja húsið núna. Við reiknum með að það verði búið svona í mars, apríl. Þá ætti þetta allt að vera komið og við ættum að geta flutt yfir,“ segir Karl Viggó Vigfússon, einn eigenda súkkulaðifyrirtækisins Omnom, en fyrirtækið flytur sig í nýtt og mun stærra húsnæði í vor.

Omnom hefur framleitt súkkulaði sitt í húsi við Austurströnd á Seltjarnarnesi sem eitt sinn hýsti bensínstöð. Nýja verksmiðjan verður staðsett á Hólmaslóð úti á Granda og þar verður jafnframt verslun með vörum Omnom.

„Þar sem við erum núna er bara sprungið. Við erum búin að vera að pína okkur í smá tíma,“ segir Karl Viggó. Reiknað er með að nýja verksmiðjan geti framleitt fimm- eða sexfalt meira súkkulaði en sú gamla. „Þetta fer náttúrulega svolítið eftir því hversu hratt það gerist og hvað við erum duglegir að stækka tækin og tólin sem við þurfum.“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um deilur Theódóru Þorsteinsdóttur við Landsbankann.
  • Emil Hallfreðsson og Hrefna Sætran stofna fyrirtækið Cantina saman.
  • Íslenskur hlutabréfamarkaður borinn saman við þá erlendu.
  • Viðtal við framkvæmdastjóra einkareknu veðurstofunnar Belgings.
  • Fjallað um skýrslu KPMG um væntingar stjórnenda.
  • Myndaþáttur frá Viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins fyrir árið 2015.
  • Svipmynd af Hreggviði Ingasyni, forstöðumanni eignastýringar Lífsverks.
  • Ítarlegt viðtal við Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitabús Glitnis.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Áramótaskaup RÚV.
  • Óðinn fjallar um styrki til kvikmyndagerðar.