Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það vera óhjákvæmilegt í því árferði sem nú ríkir hér á landi að samkeppni verði bjöguð, a.m.k. til skamms tíma.

„Ég held að það sé ómögulegt að losna við deilur um endurskipulagningu fyrirtækja á markaði í því árferði sem nú ríkir. Ég held að það sé oft mikið tjón sem verður þegar fyrirtæki, sem hugsanlega hafa lífvænlegan undirliggjandi rekstur, eru látin fara í þrot. Ferlið getur tekið langan tíma og valdið samkeppnislegu tjóni."

Hannes segist þó vel geta skilið óánægju vegna fyrirtækja sem rekin hafa verið skynsamlega undanfarin ár og ekki lent í sömu vandamálum og samkeppnisaðilar þeirra á markaði.

„Ég vonast til þess að allir þeir, sem koma að endurskipulagningu efnahagslífsins, reyni eftir fremsta megni að vega og meta hvert skref sem tekið er með það fyrir augum að lágmarka tjón, bæði fyrir neytendur og aðra."

Viðkvæmur markaður

Samkeppniseftirlitið hefur nú um 120 mál til meðferðar er varða hugsanleg samkeppnislagabrot. Mörg þessara mála tengjast kvörtunum frá keppinautum fyrirtækja á markaði sem endurreistu bankarnir þrír vinna nú að endurskipulagningu á. Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu hefur óánægja meðal forsvarsmanna fyrirtækja, sem eiga í samkeppni við fyrirtæki sem hafa verið yfirtekin af bönkunum, farið vaxandi.

Kvartanirnar til Samkeppniseftirlitsins snúast margar hverjar um að samkeppnisleg mismunun sé fyrir hendi á markaðnum með yfirtöku á einstökum fyrirtækjum. Þ.e. að einu fyrirtæki sé bjargað, sem hefur verið með skuldir umfram eignir, og því haldið áfram í rekstri eftir að hlutafé hefur verið niðurskrúfað.

Meðal mála sem Samkeppniseftirlitið er með til skoðunar er yfirtaka Vestia, dótturfélags Landsbankans, á Húsasmiðjunni. Keppinautar þess félags á markaði hafa kvartað yfir því að félaginu sé „haldið lifandi" á meðan aðrir þurfi að „berjast í bökkum" eins og einn viðmælenda Viðskiptablaðsins komst að orði.

Það sama má segja um kvartanir forsvarsmanna Símans til Samkeppniseftirlitsins vegna endurskipulagningar Teymis, eiganda Vodafone. Landsbankinn er stærsti eigandi þess félags. Síminn hefur kært þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að endurskipulagning Teymis og dótturfélaga, þ.á.m. umbreyting krafna í hlutafé með afskriftum, standist lög til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hefur málið nú til athugunar.

Horfa til margra þátta

Það er fín lína sem feta þarf í endurskipulagningu efnahagslífsins. Hún snýr ekki síst að því hvernig samkeppnismarkaður í flestum atvinnugeirum fær að þrífast þrátt fyrir mikil inngrip bankanna þótt augljóst sé að samkeppni raskast þegar fyrirtæki eru yfirtekin af lánastofnunum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að þrátt fyrir að fyrirtæki væri yfirtekið vegna slæmrar stöðu, og það látið starfa áfram á markaði, þá væri ekki þar með sagt að samkeppnislög hafi verið brotin. Meta þyrfti hvert tilvik sem kæmi upp fyrir sig og þannig þyrfti að reyna feta hina „fínu línu" eins og kostur væri.

En þessa línu hefur gengið erfiðlega að feta. Ekki síst vegna þess að fyrirtæki sem starfa hér innlands að mestu glíma nú við nær fordæmalaust rekstrarumhverfi eftir hrun bankanna og krónunnar. Á meðan krafa bankanna er sú að hámarka virði útlána reyna fyrirtæki að halda sjó í erfiðu árferði. Í þessu árferði má lítið útaf bregða.