Í dag verður upplýsingaþjónusta OMX á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, ?Company News Service?, tekin í notkun. Þessi nýja þjónustu er sérsniðin fyrir félög í OMX Nordic Exchange og eykur til muna möguleika þeirra í samskiptum við fjárfesta og fjölmiðla um allan heim að því er segir í tilkynningu OMX Nordic Exchange á Íslandi.

Þjónustan er miðlæg upplýsingagátt um félög í Nordic Exchange. Hér verða upplýsingar frá verðbréfamörkuðum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna aðgengilegar og samhæfðar til mikilla hagsbóta fyrir fjölmiðla, fjárfesta og fyrirtæki.

?Company News Service? byggist á yfirgripsmikilli sérfræðiþekkingu OMX á meðferð upplýsinga og dreifingu þeirra til fjármálamarkaðarins. Upplýsingum verður dreift til yfir 60.000 útstöðva hjá fagfjárfestum, þ.e. allt að 3000 miðlara um allan heim, og stefnt er að dreifingu til fjölmargra einkafjárfesta sem og helstu fjölmiðla, jafnt innlendra sem erlendra. Öll félög, burtséð frá stærð þeirra, þörf fyrir upplýsingar og stefnu í samskiptum, geta nýtt sér nýja kerfið til að ná til markhópa á innlendum vettvangi sem og um allan heim.

Í fréttinni kemur fram að með ?Company News Service? er komið til móts við tilskipun ESB um gagnsæi og jafnframt er þörfinni fyrir skilvirka miðlun fjárhagsupplýsinga svarað. ESB-tilskipunin kveður á um nýjar reglur um dreifingu á verðmyndandi upplýsingum. Síðustu ákvæði tilskipunarinnar verða innleidd í öllum löndunum í lok þessa árs.