Í kjölfar fyrirhugaðrar sameiningar Kauphallar Íslands og OMX mun OMX verða móðurfélag samstæðunnar. OMX er þegar skráð félag í kauphöllunum í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn. OMX hyggst sækja um skráningu í Kauphöll Íslands þegar gengið hefur verið frá kaupunum segir í tilkynningu vegna kaupanna.

Stjórn OMX kauphallanna samanstendur af framkvæmdastjórum innan OMX og utanaðkomandi stjórnarmönnum sem eru fulltrúar lykilhluthafa. Stjórnin mun hafa einn utanaðkomandi stjórnarmann sem er fulltrúi íslenska markaðarins.

Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. mun skipa ráðgjafanefnd sem í upphafi verður skipuð núverandi stjórnarmönnum Eignarhaldsfélagsins. Þessi nefnd skal veita ráðgjöf um skipan íslensks stjórnarmanns í stjórn OMX kauphallanna. Nefndin er reiðubúin til ráðgjafar um önnur málefni sem mikilvæg eru fyrir íslenskan markað.

Fjöldi skráðra félaga í Kauphöll Íslands er 22 en þau eru 677 hjá OMX.