Norræna kauphöllin OMX hefur keypt 10% hlut í norsku kauphöllinni Oslo Boers Holding, segir í frétt Dow Jones.

Kaupverðið var 287,5 milljónir sænskra króna (2,68 milljarðar króna.)

OMX hefur margoft boðið kauphöllinni í Osló að ganga til liðs við sig, en Osló kauphöllin segist vilja halda sjálfstæði sínu. Eftir að OMX keypti Kauphöll Íslands er kauphöllin í Osló eina Norræna kauphöllin sem ekki er í eigu OMX, segir í fréttinni.

Magnus Boecker, forstjóri OMX, segir að um spennandi fjárfestingatækifæri sé að ræða. Boecker segir að OMX þekki kauphöllina vel í gegn um samstarf og að hann hlakki til að þróa samstarfið frekar.

Sitjandi forstjóri kauphallarinnar í Osló, Atle Degre, segir að kauphöllin muni taka vel á móti OMX inn í hluthafahópinn, en að stefna kauphallarinnar um að halda sjálfstæði sínu sé óbreytt, segir í fréttinni.