OMX og Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. (EV), eigandi Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands, hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup á Eignarhaldsfélaginu Verðbréfaþingi hf., að því er fram kemur í frétt. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að viðræður væru á milli Kauphallarinnar og OMX. Kaupin eru næsta skref í þeirri viðleitni að samþætta verðbréfamarkaði Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og gera OMX kauphallirnar að leiðandi evrópskum markaði.

Ætlunin er að tilkynna undirritun formlegs samkomulags fyrir lok október. Hluthöfum í Eignarhaldsfélaginu Verðbréfaþingi hf. verður í framhaldinu gert tilboð þar sem þeim verður boðið að fá nýútgefin hlutabréf í OMX. Alls munu hluthafar EV fá 2,07 milljónir hluta í OMX í skiptum fyrir hlut sinn í EV að verðmæti 2.450 milljónir króna. Að auki munu hluthafar fá greitt handbært fé og verðbréf í eigu EV að verðmæti 570 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að kaupin verði fullfrágengin fyrir lok þessa árs.

?Við gleðjumst yfir því að geta tekið þátt í frekari samþættingu verðbréfamarkaða á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum sem mun verða bæði skráðum fyrirtækjum og fjárfestum til góðs. Skráð fyrirtæki í Kauphöllinni verða mun sýnilegri og geta borið sig saman við stærri hóp fyrirtækja. Enn fremur má gera ráð fyrir því að fleiri erlendir aðilar muni taka þátt á íslenskum markaði og auka þannig seljanleikann. Hin ört vaxandi íslensku fyrirtæki munu einnig auka gildi Norræna listans. Sameiningin ætti jafnframt að auka valkosti íslenskra fjárfesta. Þessi sameining skapar því vænleg tækifæri fyrir íslenskan verðbréfamarkað þegar á heildina er litið?, segir Þórður Friðjónsson, framkvæmdastjóri EV og forstjóri Kauphallar Íslands.

?Við erum ánægð með að dýpka samstarfið enn frekar og bjóðum íslenska markaðinn velkominn inn í OMX. Við erum að skapa samþættan norrænan markað til að auka viðskipti á milli Norðurlandanna og gera hann meira aðlaðandi í augum erlendra fjárfesta. Það er ánægjulegt að stuðla að auknum sýnileika íslenskra fyrirtækja með þátttöku þeirra í Norræna listanum og OMX vísitölum og með dreifingu markaðsupplýsinga", segir Jukka Ruuska forstjóri kauphallararms OMX.

Kostir sameiningar

Sameining OMX og Kauphallar Íslands mun hafa ávinning í för með sér fyrir hluthafa, útgefendur og markaðsaðila og mun stuðla að enn frekari samþættingu norræns verðbréfamarkaðar. Þetta mun styrkja stöðu OMX til að takast betur á við verkefni framtíðarinnar. Gert er ráð fyrir því að sameiningin leiði til meira seljanleika á íslenskum markaði til lengri tíma litið og muni hafa samlegðaráhrif á kostnaðar- og tekjuhlið. OMX kauphallirnar munu einnig njóta góðs af þeirri þekkingu sem þróast hefur á íslenskum markaði.

Ætlunin er að íslensk fyrirtæki muni verða hluti af Norræna listanum í upphafi næsta árs og í kjölfarið muni sýnileiki þeirra aukast. Frá sama tíma mun íslenskum markaðsupplýsingum verða dreift með öðrum upplýsingum frá OMX og íslensk bréf verða hluti af OMX vísitölunum. Vísitölur fyrir íslensk bréf munu áfram endurspegla þróun á íslenska markaðnum.

Enn fremur er búist við því að seljanleiki aukist á íslenskum hlutabréfamarkaði, ekki einvörðungu vegna meiri sýnileika íslenskra fyrirtækja, heldur einnig vegna aðgangs að sameiginlegu neti miðlara sem felur í sér möguleika á fleiri fjaraðilum. Annar mikilvægur þáttur er samhæfing á reglum og skráningarkröfum þegar samstarfinu vindur fram.

Einnig er búist við því að sameining auki hraða framþróunar á Virðisbrævamarknaði Føroya eða VMF, sem Kauphöll Íslands rekur. Nafni iSEC, hlutabréfamarkaðar Kauphallarinnar fyrir smá og millistór fyrirtæki, verður breytt og fær hann heitið First North. First North er annar stærsti evrópski hlutabréfamarkaðurinn fyrir smá og millistór fyrirtæki hvað fjölda fyrirtækja varðar. Afleiðumarkaður verður settur á stofn á næsta ári með afleiður á skráð bréf í Kauphöllinni. Markaðurinn verður starfræktur á svipaðan hátt og aðrir afleiðumarkaðir innan OMX.

Verðbréfaskráning Íslands mun áfram starfa náið með Kauphöllinni til að auðvelda sameiginlega vöruþróun og draga úr rekstrarkostnaði. Sameiningin mun styðja OMX og EV í þeirri viðleitni að samþætta norræna greiðslumiðlun og uppgjör.

Fyrirhuguð skipan fyrirtækisins

Í kjölfar fyrirhugaðrar sameiningar mun OMX verða móðurfélag samstæðunnar. OMX er þegar skráð félag í kauphöllunum í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn. OMX hyggst sækja um skráningu í Kauphöll Íslands þegar gengið hefur verið frá kaupunum.

Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráning Íslands munu eftir sem áður lúta íslenskum lögum og eftirliti íslenskra yfirvalda. Kauphöll Íslands verður markaðssett undir merkjum OMX.

Stjórn
Stjórn OMX kauphallanna samanstendur af framkvæmdastjórum innan OMX og utanaðkomandi stjórnarmönnum sem eru fulltrúar lykilhluthafa. Stjórnin mun hafa einn utanaðkomandi stjórnarmann sem er fulltrúi íslenska markaðarins.

Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. mun skipa ráðgjafanefnd sem í upphafi verður skipuð núverandi stjórnarmönnum Eignarhaldsfélagsins. Þessi nefnd skal veita ráðgjöf um skipan íslensks stjórnarmanns í stjórn OMX kauphallanna. Nefndin er reiðubúin til ráðgjafar um önnur málefni sem mikilvæg eru fyrir íslenskan markað.

Meginskilyrði
Fyrirhuguð kaup eru háð, m. a. áreiðanleikakönnun, undirritun samnings um sameiningu, samþykki eftirlitsstofnana og samþykki auka aðalfundar OMX.

Ráðgjafar
Lenner & Partners eru fjárhagslegir ráðgjafar og Vinge er lögfræðilegur ráðgjafi OMX.

JPMorgan er fjárhagslegur ráðgjafi Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing og Logos lögmannsþjónusta er lögfræðilegur ráðgjafi.