Norræna kauphöllin OMX hefur neitað þeim sögusögnum að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq hafi lagt fram yfirtökutilboð upp á 3,33 milljarða Bandaríkjadala í fyrirtækið, en sænska viðskiptadagblaðið Dagens Industri greindi frá þessu í vikunni.

Hlutabréf OMX, sem rekur íslensku kauphöllina auk kauphalla í Eystrarsaltslöndunum og á Norðurlöndunum, hækkuðu í kjölfar þessara fregna um 13% þegar hlutabréfamarkaðir opnuðu í gærmorgun. Í tilkynningu sem OMX sendi frá sér í gær staðfesti fyrirtækið hins vegar að það væri í viðræðum við nokkrar kauphallir um hugsanlegt samstarf þeirra á milli.