Norræna kauphöllin OMX íhugar nú að kaupa hluti í kauphöllum í mið- og austur Evrópu, segir forstjóri OMX, Magnus Boecker, segir í frétt Dow Jones.

Boecker segir að OMX sjái fyrir sér að gerast hluthafar eða að fara út í samstarf í einhverjum kauphöllum í Mið- og Austur Evrópu.

OMX birti nýja fyrirtækjaskrá á mánudaginn og eru nú fyrirtæki frá kauphöllum í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn á skrá OMX. Fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöll Íslands koma inn í OMX á næsta ári, segir í fréttinni.

Nýi listinn mun vekja aukinn áhuga á OMX, bæði frá minni kauphöllum í Evrópu, sem og stærri kauphöllum frá Bandaríkjunum og Evrópu, segir Boecker.

Boecker segir að kauphallir í Austur-Evrópu þurfi að gerast sýnilegar erlendum fjárfestum og að það þurfi að gerast fljótlega. Boecker talaði sérstaklega um kauphallir í Slóvakíu, Slóveníu, Rúmeníu, Tékklandi og Ungverjalandi.