Norræna kauphallarsamstæðan OMX, sem nýlega samþykkti að kaupa Kauphöll Íslands, hefur gefið til kynna að fyrirtækið hafi áhuga á að taka yfir kauphöllina í Slóveníu, segir í frétt slóvenska blaðsins Delo í dag.

Delo segir að hugsanleg yfirtaka á kauphöllinni, sem staðsett er í höfuðborginni Ljubljana og nefnd er LJSE, geti haft jákvæð áhrif fyrir kauphallaraðila LJSE. Blaðið segir að samruni geti stuðlað að lækkun viðskiptakostnaðar og aukið aðgengi slóvenskra fyrirtækja að evrópskum fjármálamörkðuðum.

Stjórnarformaður LJSE hefur sagt að kauphöllin hafi ákveðið að leita samstarfs við erlenda kauphöll í byrjun næsta árs. En heimildarmenn Delo segja að OMX sé ekki efst á listanum yfir hugsanlega samstarfsaðila.