*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 1. júlí 2020 13:51

OMXI10 hækkaði um 3,4% í júní

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,4% í júlí, heildarviðskipti með hlutabréf jukust um helming á milli ára.

Ritstjórn
Kauphöll Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Í núliðnum júnímánuði hækkaði úrvalsvísitalan (OMXI10) um 3,4% og stóð í kjölfarið í 2.089 stigum. Heildarviðskipti með hlutabréf í júní námu 43,7 milljörðum, rúmum 2,1 milljarði á dag. Það er 26% hækkun frá fyrri mánuði og 49% hækkun á sama tímabili á síðasta ári. Frá þessu er greint á vef Kauphallarinnar.

Heildarfjöldi viðskipta með hlutabréf í júní voru 3.507 talsins eða að jafnaði 175 á dag. Það er 25% lækkun frá fyrri mánuði en 93% hækkun milli ára.

Mest voru viðskipti með bréf Marel, 8,6 milljarðar og bréf Arion banka, 7,2 milljarðar. Flest viðskipti í mánuðinum voru samt með bréf Icelandair, 641 talsins. Næst mest með Marel, 521, og þriðja mest með bréf Arion banka, 476.

Heildarmarkaðsvirði þeirra 25 félaga sem skráð eru á bæði Aðalmarkað og Nasdaq First North á Íslandi nam 1.222 milljörðum en markaðsvirði Marel er um 545 milljarðar króna.

Heildarviðskipti með skuldabréf eykst einnig milli ára

Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði um 0,59% í júní og stendur í 1.707 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar lækkaði um 0,97% og sú verðtryggða hækkaði um 0,63%. 

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 117,1 milljarði í júní sem samsvarar 5,9 milljarða veltu á dag. Þetta er 33% lækkun frá fyrri mánuði en 15% hækkun frá fyrra ári. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 72,3 milljörðum og viðskipti með bankabréf 24,4 milljörðum.

Stikkorð: Arion banki Marel skuldabréf OMXI10