Tveir þriðju skráðra félaga á aðalmarkaði kauphallarinnar hækkuðu á þessum síðasta viðskiptadegi fyrir helgarfrí. Fasteignafélögin Reginn og Reitir fóru fyrir hækkunum dagsins en stærstu viðskipti dagsins voru með bréf í Arion banka. OMXI10 vísitalan hækkaði um 0,47% í viðskiptum dagsins og rauf 3.400 stiga múrinn.

Veltan dagsins á aðalmarkaði nam rétt rúmlega 5,4 milljörðum króna og voru viðskipti dagsins 441 talsins. Líkt og oft undanfarið voru flest viðskipti með bréf Íslandsbanka eða 144 talsins. Velta bankans var 420 milljónir og hækkaði gengi þeirra um 0,82%. Næstmest hreyfing var með bréf Arion banka, 54 viðskipti, og veltan rúmir 2,2 milljarðar króna. Hækkaði bankinn um 1,51%.

Sem fyrr segir var mesta hækkun dagsins hjá Regin og Reitum. Fyrrnefnda félagið hækkaði um 2,92% í dag, félagið skilaði hálfsársuppgjöri í gær, og Reitir um 2,14%. Þar á etir fylgdi Kvika með 1,85% hækkun í 353 milljóna viðskiptum og hækkun Sýnar var á svipuðu bili og Arion. Þá voru viðskipti með bréf í Högum tæplega 940 milljónir og hækkaði félagið um 1,14%. Önnur félög sem hækkuðu voru Eik, Iceland Seafood, Sjóvá, Festi, Eimskip og Origo.

Tvö félög stóðu í stað en þar voru á ferð Icelandair og Brim. Mestu lækkun dagsins mátti finna hjá Símanum, 0,59% í 269 milljóna veltu. Þá lækkaði VÍS um 0,41%, Síldarvinnslan um 0,30%, Skeljungur um 0,17% og Marel um 0,10%.

Rólegt var á First North markaðnum í dag, samanlögð velta var 26 milljónir, og þá var velta skuldabréfamegin 742 milljónir.