Úrvalsvísitalan, OMXI6, lækkaði um 25,6% á fyrri hluta þessa árs og stóð við lok dags í gær í 744 stigum.

Úrvalsvísitalan var sett á laggirnar um síðustu áramót og inniheldur gengi sex stærstu félaga Kauphallarinnar. Hún var í upphafi 1.000 stig.

Um miðjan janúar fór gengi hlutabréfa að lækka og það var síðan í fyrri hluta mars sem Úrvalsvísitalan náði lágmarki, nánar tiltekið þann 12. mars en þá stóð hún í 596 stigum og hafði þá veikst um rúm 40% frá áramótum. Þennan sama dag náði gengi krónunnar hámarki á árinu og hafði þá styrkst um 17% frá áramótum.

Síðan þá hefur krónan hins vegar lækkað töluvert en hlutabréf aftur á móti hækkað hægt og rólega og sem fyrr segir var lokagengi Úrvalsvísitölunnar í gær 744 stig.

Össur stendur upp úr

Aðeins tvö félög hafa hækkaði í Kauphöllinni frá áramótum. Össur hefur hækkað um rúm 17% og Föroya banki um 0,5%.

Þá kemur Straumur lækkað mest allra félaga eða um 99,5% en félagið sem er kunnugt er horfið úr Kauphöllinni nú. Hins vegar var það hluti af OMXI6 vísitölunni en Föroya banki kom í stað Straums þegar Straumur var afskráður.

Af þeim félögum sem enn eru skráð í Kauphöllina hefur Icelandair Group lækkað mest eða um tæp 65%. Þá hefur Bakkavör lækkað um 57,8% og Century Aluminum um 35,7%.

Mesta veltan með bréf í Marel

Velta með hlutabréf nemur það sem af er ári rétt rúmum 23 milljörðum króna. Þar af hafa mestu viðskiptin verið með bréf í Marel eða um 7,9 milljarðar króna. Þá nemur velta með bréf í Össur tæpum 6 milljörðum króna það sem af er ári.

Því næst kemur Straumur þar sem velta með bréf í félaginu nam 4 milljörðum á fyrri hluta ársins og um 3 milljarða króna velta var með bréf í Icelandair Group.